Viðtal Birt í Sámi vor 2010
Hundaræktandinn
Hjördísi Ágústsdóttur þekkja flestir sem hafa fylgst með hundasýningum síðast liðin ár því hundar hennar hafa verið sigurvísir á sýningum Hundaræktarfélagsins. Glæsilegar hreyfingar hunda hennar fá hvern hundaunnenda til að hrífast með í lokaúrslitunum. Það hefur hins vegar skipst á skini og skúrum í lífi Hjördísar sem hundræktanda en áhugi hennar og kraftur er mikill og áfram heldur hún. Mig langaði að forvitnast nánar um ræktun hennar og skoðanir á hundarækt.
Hvenær og hvernig vaknaði áhugi þinn á hundum og hundaræktun og af hverju heillast þú af þinni tegund?
Þegar ég var 12 ára kynntist ég ræktanda og þjálfara þýskra fjárhunda í Danmörku og féll gersamlega fyrir þeim. Seinna bjó ég í Ástralíu í eitt ár og þar átti fjölskyldan þýskan fjárhund. Eftir að ég kom aftur heim til Íslands kom ekkert annað til greina en að fá sér einn slíkan. Ég þurfti að bíða í 8 mánuði eftir ættbókarfærðu goti hjá HRFÍ, þá 17 ára gömul. Foreldrar mínir voru að vísu þá ekki alveg sátt með tegundarvalið, enda voru þýsku fjárhundarnir þá ekki eins og þeir eru í dag – en í dag vita þau hversu miklir ljúflingar þessi hundategund er.
Hvernig varð ræktunarnafn þitt til?
Ég og þáverandi sambýlismaðurinn minn, Eiríkur Guðmundsson heitinn, bjuggum og rákum Stóðhestastöð ríkisins í Gunnarsholti í Rangárvallarsýslu. Hrossin okkar voru kennd við Gunnarsholt þannig að það kom ekki annað til greina en að kenna einnig hundana frá okkur við þennan stað. Fyrsta Gunnarsholts gotið kom í september 1994. Það var samt aldrei ætlunin að fara útí einhverja mikla ræktun, bara svona 1–2 got.
Hverjir hafa haft mest áhrif á þig og aðstoðað þig mest í hundaræktinni?
Ræktandinn minn Leif Wanberg hjá Gildewangen í Noregi hefur verið mér mikil stoð og stytta. Án hans hefði þetta aldrei verið hægt. Margir aðrir góðir hafa aðstoðað mig með mína hunda og má þar helst nefna Önnu Francescu sem er búin að vera mín mesta hjálp síðustu ár – hún er frábær sýnandi. Einnig hafa Elín Eiríksdóttir, Gunnlaugur Valtýsson og dóttir þeirra Kristlaug, Óðalsdreka ræktendur í þýskum fjárhundi, aðstoðað mig mikið í gegnum súrt og sætt.
Á hvað leggur þú mesta áherslu í ræktuninni?
Gott heilbrigði, gott geðslag, fallegir hundar og ánægðir hvolpaeigendur er auðvitað markmiðið hjá mér. Stundum gengur allt upp og stundum ekki. En ég get aldrei gert betur en mitt besta.
Hvaða einkenni hefur þér fundist erfiðast að rækta í tegundinni?
Mér hefur fundist stærðin vera mér svolítið erfið. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei notað hund eða tík yfir standard þá hafa komið hundar frá mér sem mér finnast alltof stórir.
Hvað hafur þú ræktað marga íslenska og alþjóðlega meistara?
Frá mér hafa komið 6 meistarar og tveir alþjóðlegir meistarar. Alls hafa 20 hundar frá okkur eða í okkar eigu fengið meistarastig eða meira.
Hvaða hundur eða hundar úr þinni ræktun finnst þér bera af öðrum?
ISCH I C.I.B ISW-02 Gunnarsholt´s Baroness er án efa besti hundur sem ég hef ræktað. Ég valdi hana daginn sem hún fæddist. Ég veit ekki enn af hverju ég valdi hana, það var bara eins og eitthvað drægi okkur saman.
Hvaða hundur eða hundar hafa, að þínu áliti, haft mest áhrif á stofninn hér á Íslandi?
ISCH C.I.B Xandra vom Laacher-Haus án efa. Hún eignaðist mörg góð afkvæmi sem stóðu sig frábærlega í sýningarhringnum eða í vinnu og hún fékk 6 sinnum heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Hún féll frá 11 ára gömul.
Eftir hverju ferðu aðallega þegar þú ákveður að para saman hund og tík? Skipta ættirnar mestu máli, útlit hundanna, heilbrigði, geðslag eða ....?
Ættirnar og línuræktun skiptir mig miklu máli. Að mínu mati er það ekki nóg að skoða bara einstaklingana því það er ekki sjálfgefið að fá bestu hvolpana undan bestu foreldrunum. Þegar ég skoða ættirnar skoða ég allt – heilbrigði, geðslag og útlit.
Hvernig velur þú hvolp til áframhaldandi ræktunar?
Ég hef verið mjög dugleg að halda eftir hvolpum úr mínum gotum til áframhaldandi ræktunar. Það er svo margt sem kemur til greina þegar ég er að velja hvolp en ég held að þetta sé eitthvað sem þarf að hafa í sér, ræktandi þarf að hafa „auga fyrir hundum“. Ég hef verið einstaklega heppin með mitt val á hvolpum til áframhaldandi ræktunar og hef ræktað undan alls 19 einstaklingum í dag.
Hefur þú lent í einhverjum leiðinlegum atburðum með got? Ef svo er -hvernig tókstu á við það?
Það hefur svo margt gerst á 17 árum. En ég get sagt að ég hef alla tíð verið einstaklega heppin með hvað tíkurnar mínar hafa verið duglegar með got. Ég hef t.d. aldrei þurft að fara með þær í keisaraskurð eða misst tík eftir got. Ég hef misst hvolpa og það hafa fæðst andvana hvolpar og það er alltaf erfitt.
Áttu einhver góð ráð til annarra ræktenda?
Það er gott að líta sér aðeins nær þegar sett er út á aðra. Það er nokkuð merkilegt við hundarækt að það heppnast ekki alltaf allt – ekki einu sinni hjá þeim sem halda því fram! Fæst orð bera minnstu ábyrgð, einsog einhver sagði.
Hvernig hefur þér tekist að samræma hundahaldið daglegu lífi í þéttbýlinu?
Það getur oft verið flókið sérstaklega vegna vinnunnar. Þetta getur oft verið flókið að samræma þetta áhugamál við vinnuna. Það er margt sem mig langar að gera hundatengt en get því miður ekki vegna anna.
Finnst þér ríkja skilningur og umburðarlyndi gagnvart þeim sem eiga nokkra hunda og þeim sem rækta hunda í þéttbýli?
Ég er búsett á Akranesi og núna í vor á að kjósa um hvort banna eigi hundahald með öllu vegna sóðaskaps. Eitthvað sem maður bjóst ekki við að gæti komið upp 2010! Sorglegt að það skuli vera enn að gerast að fólk hafi svona mikla fordóma gagnvart hundum. Það sorglegasta við þetta er að það eru örfáir hundaeigendur sem ekki hirða upp eftir hundana sína sem eru að skemma fyrir okkur hinum, sem förum eftir settum reglum og sýnum tillitsemi. Annars eru nágrannar mínir fínir og skipta sér ekkert af okkar hundahaldi. En í flestum tilfellum skilur fólk ekki af hverju ég er með svona marga hunda.
Ertu ánægð með þróun ræktunar á þinni tegund/um, eða finnst þér að ræktendur mættu huga betur að einhverjum atriðum varðandi hana?
Já, er bara nokkuð sátt með mína tegund. Það eru nokkur atriði sem mér finnst að ræktendur verða gæta að. Helst er það stærðin, en mér finnst þeir vera dálítið stórir og grófir og einnig þarf passa uppá yfirlínuna. Annars finnst mér margir ræktendur á Íslandi vera að gera góða hluti. Það hafa verið fluttir inn margir góðir hundar sem eru og verða tegundinni til framdráttar í framtíðinni.
Áttu einhverjar óuppfylltar óskir um framtíð ræktunar þinnar eða tegundarinnar í heild?
Ég er búin að reyna að gera mitt besta fyrir tegundina og árangurinn er meiri en mig hefði nokkurn tímann órað fyrir.
Ég vona bara að tegundin verði aldrei aftur fyrir því að vera úthrópuð sem hættuleg og að vel ættaðir ættbókarfærðir hundar standi ávallt ofar en svokallaðir ættbókarlausir „hreinræktaðir“ þýskir fjárhundar .
Þú átt langan feril að baki sem hundaræktandi. Er eitthvað sem þið mynduð vilja hafa gert öðruvísi? Hvernig hefur þú breyst frá því þú byrjaðir að rækta hunda?
Það er margt sem hefur gerst frá því að ég byrjaði að rækta þýskan fjárhund og margt sem ég hefði viljað gera öðrusvísi. Þrátt fyrir öll þessi ár og miklu reynslu er ég enn að læra.Ég hef lent í ýmsu í minni hundarækt. Eftir að fyrrum sambýlismaður minn og meðræktandi lést 1998 hef ég staðið nánast alveg ein í þessu sem hefur oft verið erfitt,hvort sem vel hefur gengið eða illa. Svo lendi ég í þeim hræðilega atburði að missa alla hundana mína í slysi árið 2006 og þá var ég eiginlega viss um að þessu væri lokið. En án hundanna gat ég ekki verið og hélt áfram, kannski samt ekki af eins miklum krafti og áður enda taka svona áföll mikið á mann.
Að lokum, hvernig myndir þú vilja að fólk minntist þín sem hundaræktanda?
Eftir árangri og gjörðum.
Að lokum langar mig að benda fólki á stærstu heimasíðu í heiminum um þýskan fjárhund sem ég ásamt Ólafi Tryggvasyni stofnuðum og gerðum www.pedigreedatabase.com. Á þessari síðu er hægt að skoða myndir frá ótal ræktendum og fá upplýsingar um allt sem viðkemur þýskum fjárhundi
Gamalt viðtal fyrir Sám skrifað af Brynju Tomer
Stór glerskápur, stútfullur af bikurum af öllum stærðum og gerðum er það fyrsta sem mætir manni í stofunni heima hjá Hjördísi H. Ágústsdóttur, sem býr í fallegu einbýlishúsi í Mosfellsbæ.Hún hefur ræktað þýskan fjárhund í rúmlega 10 ár og bæði verið farsæll ræktandi og sigursæll sýnandi. Á vegg í stofunni hanga tveir Tinna-skildir, minnisvarðar um stigahæsta hunds ársins og einnig litríkt knippi sem gert hefur verið úr sýningaborðum og er í öllum regnbogans litum. Ótaldar eru myndir af hundum við ýmis tækifæri, risastór páfagaukur, sem segir „Halló” í hvert sinn sem gengið er framhjá búri hans, kanínur og köttur, að ógleymdum tveimur tíkum af þýsku fjárhundakyni sem liggja makindalega í leðursófanum. Félagar þeirra eru í „herbergjum” sínum, sem útbúin hafa verið úti í bílskúr. Hundarnir eru stundum inni á heimilun og stundum í skúrnum, en að jafnaði eru tveir eða þrír hundar inni á heimilinu hverju sinni.
Viðurkenning notuð í hár Huldu litlu
„Það hefur svolítið saxast á verðlaunaborðana í knippinu,” segir Hjördís og horfir glottandi á dóttur sína, Huldu Katrínu. Þær mæðgur hafa ekki keypt hárborða árum saman, heldur ávallt fundið, í knippinu, borða í hentugum lit fyrir tagl eða fléttur í hár Huldu litlu, hvort sem óskaliturinn hefur verið bleikur, fjólublár, hvítur, eða rauður. Við hátíðleg tækifæri, hafa íslensku fánalitirnir verið notaðir sem hárskraut, en borðar af því tagi eru, eins og vönu sýningafólki ætti að vera kunnugt, tákn um íslenskt meistarastig. Það verður að segjast eins og er að fáa hef ég hitt, sem láta sig veraldlegar viðurkenningar jafn litlu varða og sú sem heimsótt er að þessu sinni.Hjördís er að mörgu leyti mjög sérstök kona. Hún býr ásamt manni sínum, dóttur og dýrum í Mosfellsbæ og leggur mikinn metnað í ræktun þýskra fjárhunda. Auk þess halda þau hjón úti heimasíðunni www.pedigreedatabase.com. sem þykir einstaklega fagmannleg og vönduð.
Í gróðurhúsi þeirra vaxa ilmandi rósir af ýmsum litum og gerðum, vínviður og aðrar matjurtir.Hjördís hefur löngum vakið athygli á sýningum HRFÍ fyrir hlaup með þýska fjárhunda og frábæran árangur. Sámur leitaði til hennar og að hana að segja frá ferli sínum sem sýnanda og ræktanda.
Byrjaði 18 ára
„Ég sýndi hund í fyrsta skipti í Laugardalshöllinni 1992, 18 ára gömul. Þá sýndi ég unga schafer tík sem mér hafði verið gefin. Ég vissi ekkert um hvað þetta snerist en hafði þó mætt á æfingar fyrir sýninguna. Mér gekk alveg ágætlega og varð ljóst að ekki yrði aftur snúið. Ég var smituð
Allt tók þó sinn tíma því ég vissi að ég yrði að fá betri hund til geta verið áfram í þessu. Og það gerðist árið 1994 þegar ég flutti inn eins og hálfs árs myndarlegan schafer karlhund, Gildewangen´s Joop.
Komin til að sjá og sigra. . . eða þannig
Við Joop mættum á sýningu í september 1994 og er alveg óhætt að segja að ég var komin til að sigra.Væntingar voru miklar og sjokkið ekki minna þegar ljóst var að við unnum ekki. Þetta var mjög lærdómsrík reynsla sem gleymist aldrei.
Joop gekk nokkuð vel eftir þetta og fékk hinn eftirsótta titil Íslenskur meistari.
Við náðum einu sinni þeim frábæra árangri að fara í úrlsit um besta hund sýningar og enduðum þar í fjórða sæti.Joop fékk jafnframt heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og besta afkvæmahóp sýningar.Árið 1996 eignaðist ég tvo innflutta schafer hunda.Tveggja ára gamla tík Xandra vom Laacher-haus og 6 mánaða villing, hann Gildewangen´s Aramis.Ég fór með þau á sýningu á Akureyri skömmu eftir að þau komu úr einangrun og okkur gekk nokkuð vel.”Hjördís segir að þó hafi sér þótt líða of stuttur tími frá því hundarnir komu úr einangrun þar til hún fór með þá á sýningu. „Hundar sem fara í gegnum einangrun verða nefnilega að fá góðan tíma til að jafna sig.”Xandra varð íslenskur meistari eftir þrjár sýningar og er nú jafnframt alþjóðlegur meistari. „Hún náði einnig þeim frábæra árangri að verða einu sinni 4. besti hundur sýningar. Hún hefur 4 sinnum fengið heiðursverðlaun fyrir afkvæmin sín og einu sinni fyrir besta afkvæmahóp sýningar.
Aramis slær í gegn
Gildewangen´s Aramis sló heldur betur í gegn. Aðeins 12 mánaða varð hann besti hundur sýningar og það var bara byrjunin, því hann varð einu sinni 2. besti hundur sýningar ,tvisvar sinnum 4. besti og síðast en ekk síst þrisvar sinnum í viðbót besti hundur sýningar.
Aramis varð íslenskur og alþjóðlegur meistari og jafnframt stigahæsti hundur ársins 1998 og 1999.Aramis var frábær sýningahundur og vildi allt fyrir mig gera. Hann var sýningahundurinn sem alla dreymir um að eignast,” segir Hjördís og hallar höfðinu aftur meðan hún rifjar upp dagana með Aramis. Svo hallar hún sér fram angurvær á svip: „Aramis lést árið 2000, aðeins fjögurra ára gamall.”Hjördís segir það ekki sjálfsagt að eignast hund einsog Aramis. „Ég var nokkuð viss um að ég ætti aldrei aftur eftir að eignast hund sem yrði besti hundur sýningar. Þegar ég fór með unga tík, Gunnarsholt´s s’s Erín, í fyrsta sinn á sýningu, varð hún 4. besti hundur sýningar. Það kom mér skemmtilega á óvart.. . .
og dóttirin fetar í fótsporin
Gunnarsholt´s Baroness varð eitt sinn 4. besti hundur sýningar, en á síðasta ári var hún í barnseignarfríi. Þegar við mættum aftur til leiks á þessu ári varð hún besti hundur sýningar, bæði í vor og á sumarsýningunni í síðastliðnum júní. Þetta er frábær árángur hjá Baroness, sem er orðin fjögurra ára gömul. Hún er að mörgu leyti mjög lík föður sínum, honum Aramis.Mér hefur gengið mjög vel á sýningum og hef átt marga góða hunda sem gengið hefur vel. Á 10 árum hef ég tekið þátt í 26 sýningum og er afraksturinn sem hér segir:Sex sinnum besti hundur sýningar.Einu sinni 2. besti hundur sýningar.Sex sinnum 4. besti hundur sýningar.Alls voru það fimm hundar sem náðu þessum árangri. Á síðasta áratug hef ég eignast fimm íslenska meistara og tvo alþjóðlega meistara. Nú langar mig mest til að lenda í 3. sæti um besta hund sýningar. Ég get lofað ykkur því að ég hætti ekki að sýna fyrr en ég næ því takmarki,” segir Hjördís og glottir.Hjördís hefur sýnt hunda af mörgum tegundum í gegnum tíðana og samtals á tekið móti 25 íslenskum meistarastigum og 23 alþjóðlegum meistarastigum,fyrir bæði sína hunda og annarra.
Vinna og aftur vinna
Hjördís segir að mikil vinna liggi að baki góðum árangri á sýningum og margir kílómetrar hafa verið hlaupnir í gegnum tíðina. „Einhverra hluta vegna leggur maður þetta þó á sig ár eftir ár.”Hún segist hvetja alla sem hafa áhuga á að sýna hunda sína, til að drífa sig af stað. „Að vísu tekur þetta töluverðan tíma og menn verða að átta sig á að árangur á einni sýningu segir ekki mikið. Mikilvægt er að fá álit fleiri dómara.Eigendur þurfa líka að vinna heimavinnuna sína. Hundur á sýningu á að vera í frábæru formi, ef honum á að ganga vel. Hann þarf að vera vel fóðraður og vel þjálfaður í sýningahring.”Til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref segir Hjördís: „Munið að allt tekur sinn tíma og að æfingin skapar meistarann.„Maður má aldrei gera of miklar kröfur á sýningu og aldrei nokkurn tímann fara með því hugarfari að sigra. Hundar eru lifandi dýr, sem eiga sína góðu og slæmu daga. Við því er ekkert að gera. Auk þess eru ekki allir hundar skapaðir til að verða góðir sýningahundar, enda á það aldrei að vera markmið þegar fólk kaupir hvolp. Góður árangur á sýningu er bónus, sem skiptir óskaplega litlu máli þegar upp er staðið.”
Viltu eiga hund eða viltu rækta?
Hjördís gerir skýran greinarmun á hundum sem ætlaðir eru í ræktun og þeim sem ætlaðir eru sem góðir heimilishundar.
„Vissulega þurfa allir hundar að vera góðir heimilishundar, enda eigum við hundana okkar allt árið, þótt þrjár helgar ársins séu tileinkaðar sýningum. Þeir sem hafa áhuga á að rækta hunda verða undantekningarlaust að kynna sér ræktunarmarkmið hundanna áður en þeir ákveða að nota hundinn sinn í ræktun.” Eitt af því sem Hjördís segir að sér þyki leiðinlegt að sjá, er þegar hundeigendur sætta sig ekki við einkunnagjöf dómara og deila við dómara í sýningahring. „Hundaræktarfélagið fær til landsins virta dómara og að mínu mati er ekki til neins að deila við þá. Ég hef lent í því að dómari hafi hent hundum mínum út úr sýningahring með skömm. Það er hluti af lífi þeirra sem taka þátt í sýningum og HRFÍ á ekki að þurfa að vera með áfallahjálp fyrir okkur sem lendum í þessu.Ég verð alltaf jafn hissa og ánægð ef ég næ góðum árangri, því ég veit að hundar sem eru með mínum hundum í úrslitum, eru allir jafn góðir og fallegir. Þetta er spurning um dagsform og áherslur dómara hverju sinni.”
Hjördís er ótrúlega hæversk, miðað við þann góða árangur sem hundar hennar hafa náð á
síðustu árum. Hún leggur mikla áherslu á að hún vilji koma á framfæri þakklæti til þeirra sem vinna
að sýningum HRFÍ,
þeim sem vinna við skipulagningu innan sýningarhrings og utan. „Það hefur komið fyrir að ég hef verið með marga hunda, stundum af ólíkum tegundum, á sýningum, en starfsfólk sýninga hefur ávallt sýnt mér ótrúlegt umburðarlyndi og ævintýralega þolinmæði. Þetta starfsfólk sér til þess að skipulag sýningar haldist og á mikinn heiður skilð fyrir framlag sitt, sem ég veit að er allt sjálfboðavinna.Sjáumst á október-sýningu HRFÍ og gangi ykkur öllum vel.” eru lokaorð þessarar makalausu konu í Mosfellsbænum.